Ævintýraferð sigurvegara FIRST LEGO league 2014 til St. Louis

Published by Ragna Skinner on

Við fengum senda þessa skemmtilegu frétt sem kom fram í skólablaði sigurvegara FIRST LEGO league 2014.
Þegar heim var komið frá Reykjavík í byrjun febrúar, með verðlaunabikara og boð um að taka þátt í heimsmeistarakeppninni í Lego sem haldin var í St. Louis, Missouri Bandaríkjunum, þurfti að setjast niður og ákveða næstu skref.  Þetta kom sannarlega allt skemmtilega á óvart.  En stórhuga nemendahópur með samstilltan hóp foreldra á bak við sig tók þá ákvörðun í samráði við liðstjórann og kennara hópsins Guðrúnu Lindu Hilmarsdóttur að bretta upp ermar og takast á við þetta ævintýri sem hópnum stóð til boða að taka þátt í.  Nú tók við tími þrotlausra æfinga en ekki síður bréfaskrifta og hringinga, sem foreldrar tóku að sér því kostnaður er mikill við svona langt ferðalag og sækja þurfti víða eftir styrkjum.  Er skemmst frá því að segja að fjöldi einstaklinga, fyrirtækja og stofnana tóku góðfúslega undir styrkbeiðnir og lögðu verkefninu lið.  Erum við öll þeim afar þakklát fyrir.  Án þessa liðsstyrks hefði ferðin aldrei verið farin.  Einn liður í fjáröflun var kaffihúsadagur sem keppnisliðið hélt ásamt foreldrum sínum.  Þar buðu þau upp á kaffi og kræsingar og sýndu gestum verkefnið sitt um leið.  Þótti þessi dagur takast mjög vel.
Við lögðum af stað til Keflavíkur um klukkan 9 að kvöldi 19. apríl í 17 manna bíl.  Við keyrðum alla nóttina og vorum komin um klukkan 6 um morguninn.  Við byrjuðum á því að fá okkur morgunmat.  Eftir það fórum við í sund í Keflavík en flugið okkar var ekki fyrr en seinnipartinn.  Eftir sundið fengum við okkur að borða á KFC.  Þegar við lentum í Newark, eftir sex tíma flug var klukkan sjö um kvöld að staðartíma.  Við gistum þarna eina nótt á ágætu hóteli.  Daginn eftir flugum við í ca. þrjá klukkutíma til St. Louis og vorum lent þar klukkan tólf á hádegi að staðartíma.  Þaðan fórum við upp á hótel, skiluðum dótinu okkar, fengum okkur göngutúr í nágrenninu og enduðum á því að fá okkur að borða á McDonalds. Dagskráin var mjög stíf, hófst kl. 7:00 alla morgna og stóð fram á kvöld.
Þegar við komum á keppnisstaðinn fyrsta daginn, á miðvikudeginum, byrjuðum við á því að setja upp básinn okkar.  Hvert lið var með einn bás og þar átti að kynna liðið sitt, landið og rannsóknarverkefnið.  Eftir að básinn var orðinn klár skiptum við okkur niður í hópa, þrír til fjórir voru í básnum og hinir skoðuðu bása annarra keppenda.  Á fimmtudeginum sýndum við dómurum verkefnið okkar, kynntum rannsóknarverkefnið, hönnunina á róbótnum og plakatið.  Þetta gekk allt frekar vel.  Það var samt dálítið erfitt að þurfa að segja frá öllu á ensku.  Þann dag kepptum við líka þrjá æfingaleiki í róbótnum og þar gekk okkur ágætlega og skilaði okkur í 75. sæti af 105 keppendum.  Á föstudeginum fór róbótakeppnin hins vegar fram, þar kepptum við þrjá róbótaleiki og þar gekk ekki eins vel og enduðum við í 95. sæti í keppninni. Á laugardeginum voru veittar viðurkenningar og liðin áttu að taka niður básana sína. Seinni part dagsins og um kvöldið var lokaathöfn með verðlaunaafhendingu og skemmtiatriðum.
Við tókum okkur einn aukadag og notuðum sunnudaginn, síðasta daginn í St. Louis til að skoða okkur aðeins um í borginni. Við fórum upp í The Gateway Arch sem er gríðarhár bogi og hægt er að taka lyftu upp á toppinn.  Þaðan má sjá gullfallegt útsýni yfir alla borgina.  Svo fórum við í minjagripabúðirnar fyrir neðan, röltum aðeins um bæinn og tókum svo lest og strætó í garðinn (Forest Park) þar sem við nutum góða veðursins og skoðuðum okkur um.  St. Louis er skemmtileg borg og þar er margt hægt að sjá.

Um leið og keppnin okkar fór fram fóru fram aðrar keppnir í St. Louis þar sem keppt var með róbóta af ýmsum stærðum og gerðum.  Þessi ferð var mjög skemmtileg og lærdómsrík.  Flestir hóparnir voru að koma í þriðja, eða jafnvel fjórða sinn til að taka þátt í keppninni þannig að við gátum verið ánægð með okkar frammistöðu þar sem við vorum að reyna þetta í fyrsta sinn.  Við erum þakklát öllum þeim sem styrktu okkur til þessarar farar.  Við viljum ennig þakka fararstjórunum okkar fyrir samfylgdina.
The Gateway Arch

Categories: Fréttir