Um First Lego League

First®: For Inspiration and Recognition of Science and Technology

Lego®: “Leg godt”

 

First Lego League er alþjóðleg Lego keppni sem nær til yfir 600.000 ungmenna í 110 löndum víða um heim.

First Lego League eða FLL er afrakstur samstarfs milli FIRST® og LEGO® Group. Árið 1998 tóku Dean Kamen, stofnandi FIRST og Kjeld Kirk Kristiensen frá LEGO® Group saman höndum og stofnuðu FIRST LEGO keppnina, öflug keppni sem býður börnum upp á gáskafullt en innihaldsríkt nám um leið og þeim er hjálpað til að uppgötva þá skemmtun sem hafa má af vísindum og tækni.

FIRST LEGO League er nú skipt í þrjár deildir; Challenge (10-16 ára) Explore (6-9 ára) Discover (4-6 ára)

 

 

 

 

 

First Lego League Challenge, sem er fyrir ungmenni á aldrinum 10-16 ára, hefur verið haldin af Háskóla Íslands síðan árið 2005.

Í hverju liði eru 4-10 liðsmenn og a.m.k. einn fullorðinn leiðbeinandi.

Hvert lið:

  • hannar og forritar LEGOþjark (vélmenni) sem leysir þrautir ársins í vélmennakapphlaupi.
  • tekur þátt í nýsköpunarverkefni með því að kanna og leysa raunveruleg vandamál sem tengjast viðfangsefni (þema) hvers árs.
  • byggir upp góðan liðsanda og keppnisanda.

 

Tilgangur First Lego League (FLL) er að bjóða ungu fólki að taka þátt í spennandi verkefnum sem:

  • skapa færni í vísindum og tækni
  • örva nýsköpun
  • byggja upp lífsleiknihæfileika eins og sjálfstraust, samvinnu- og samskiptahæfni

Í FLL er unnið þverfaglega og keppninni má skipta upp í eftirfarandi áhersluþætti:

  • forritun og hönnun
  • nýsköpunarverkefni
  • miðlun – kynning og básagerð
  • liðsheild

FLL hvetur krakka til að prófa og kanna nálgunaraðferðir vísindagreina, jafnvel útvíkka þær eða gjörbreyta þeim, hvort sem er með sköpun, tækni eða rannsóknum. Áhersla er lögð á að hagnýta nálgun þar sem rýnt er samhliða í framkvæmd og fræði.

Í FLL eru allir eru sigurvegarar. Dómarar læra af keppendum, leiðbeinendur læra af liðssveitum og við lok hvers verkefnis hafa nemendur dýpkað sig í viðfangsefnum og spenntir að fá að taka þátt aftur. Lögð er áhersla á að góður keppnisandi ríki; liðin séu hvetjandi hvort við annað og ýmislegt gert til að liðin kynnist hvort öðru og verkefnum annara.

  • Uppgötvun: Við könnum nýja færni og hugmyndir.
  • Nýsköpun: Við nýtum sköpunarkraft og þrautseigju við lausn vandamála.
  • Áhrif: Við nýtum það sem við lærum til að bæta heiminn.
  • Þátttaka: Við berum virðingu fyrir hvert öðru og fögnum fjölbreytileikanum.
  • Teymisvinna: Við erum sterkari þegar við vinnum saman.
  • Skemmtun: Við höfum gaman og fögnum því sem við gerum!

FLL þema hvers árs er byggt á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og þannig öðlast þátttakendur tækifæri og fjölbreytta hæfni til að fást við mismunandi viðfangsefni sem tengjast menningu samfélagsins sem og mæta þeim áskorunum er felast í stöðugum samfélags- og tæknibreytingum.

Leiðbeinendur/ kennarar sem taka þátt í FLL fá þannig tækifæri til að þróa eigin starfskenningu með hliðsjón af heimsmarkmiðunum. Einnig styður keppnin við kennara sem vilja prófa þverfagleg, fyrirbærafræðileg verkefni sem fjalla um málefni líðandi stundar. FLL er í raun yfirgripsmikil námsreynsla sem veitir kennurum styrk til öðlast innsýn í verkefnamiðaða námskrá (e. project based learning) þar sem nemendur takast á við fjölbreytt viðfangsefni í samvinnu við aðra. Einnig styður FLL við 21. aldar færni eins og sköpunargáfu, tækniþekkingu, lausn vandamála og teymisvinnu í virku námsumhverfi.

Eins og sjá má er ríkur samhljómur með First Lego League og Aðalnámskrá grunnskólanna sem og nýrri menntastefnu Reykjavíkurborgar. FLL kallar á örvandi námsumhverfi í skólum þar sem nemandinn samþættir þekkingu sína og leikni, samtímis því að þjálfast í samskiptum sem byggjast á virðingu og jafnrétti. Nemendur æfast í að tjá skoðanir sínar og útskýra verklag sitt á ábyrgan, gagnrýninn og skýran hátt.

FLL kemur inn á margar námsgreinar grunnskólans s.s. forritun, tæknimennt, hönnun, lífsleikni, og náttúruvísindi.  Þar sem verkefnið er þverfaglegt eru möguleikarnir miklir fyrir kennara að nýta sér sérþekkingu og kunnáttu sína og hentar verkefnið flestum þeim sem starfa með ungmennum á aldrinum 10-15 ára. Ekki þarf að vera sérfræðingur í neinni sérstakri grein heldur vera sá leiðbeinandi sem heldur vel utan um nemendahópinn/liðið og styður þau í gegnum allt ferlið.