Úrslit 2019
First Lego League 2019 keppnin fór fram í Háskólabíó þann 9.nóv síðastliðinn.
Ef það væri í þínum höndum að byggja betri heim, hvernig yrði hann?“ var þema keppninnar í ár og snerist um borgarhönnun. Þátttakendur voru um 140 á aldrinum 10 til 16 ára og fjöldi leiðbeinenda hafði unnið með þeim frá því í ágúst við undirbúning.
Það var lið Garðaskóla í Garðabæ, sem kallaði sig Garðálfana sem fór með sigur af hólmi. Í því liði var Tinna Maren Þórisdóttir. Hún segir keppnina hafa verið valgrein sem hún hafi merkt við með hálfum huga.
„Ég átti ekki von á að verkefnið yrði skemmtilegt en reyndin varð önnur og ég kynntist fullt af krökkum sem ég hafði aldrei talað við. Svo vissi ég að ég væri dálítið góð í forritun og hönnun.“ Tinna segir mest unnið í tölvum.
„Við byggðum róbót úr Legokubbum og þurftum að forrita hverja einustu hreyfingu hans. „Þemað var borgin og hvað við vildum bæta. Unglingum er mikið skutlað til og frá og því fylgir umferð, bensíneyðsla og mengun svo við hönnuðum geymslur fyrir rafmagnshlaupahjól sem væru settar fyrir framan skóla, íþróttahús, sundlaugar og bíó. Við öfluðum okkur upplýsinga frá fullt af fólki um efni og rafhlöður sem við ættum að nota og hver kostnaðurinn gæti orðið og völdum efni sem væri ekki bara gott heldur fallegt líka, þannig að um nokkurs konar listaverk yrði að ræða.“ Nú hyggst liðið skella sér til Hróarskeldu í lok nóvember til að keppa fyrir Íslands hönd í Norðurlandakeppni í Lego.
Úrslit keppninnar voru eftirfarandi:
First Lego League meistarar: Garðálfarnir í Garðaskóla í Garðabæ
Besta liðsheildin: Garðálfarnir í Garðaskóla í Garðabæ
Besta rannsóknarverkefnið: The Einsteins frá Vogaskóla í Reykjavík
Forritun og hönnun vélmennis: Citycyborgs frá Lágafellsskóla í Mosfellsbæ
Vélmennakappleikur: Legolads frá Lundarskóla á Akureyri