Skráning hafin fyrir næstu keppni FIRST LEGO League

Published by Ragna Skinner on

FIRST® LEGO® League (FLL) keppnin árið 2015 verður haldin laugardaginn 14. nóvember 2015.

Þriðjudaginn 9. júní hefst skráning í FIRST LEGO League (FLL) keppnina sem haldin verður laugardag 14. nóvember  2015. Markmiðið er að vekja áhuga ungs fólks á vísindum og tækni, sem og að efla sjálfstraust, leiðtogahæfni og lífsleikni. Síðast tóku um 170 börn þátt, alls staðar að á landinu.

Vinsamlegast athugið!

Í þetta sinn verður keppnin haldin í nóvember í stað janúar. Þetta er gert til þess að laga okkur að norrænum leikreglum keppninnar því við erum komin í samstarf við FIRST LEGO League Scandinavia. Þetta norræna samstarf er m.a. hugsað til þess að auðvelda vinningsliðum keppninnar hérlendis að taka þátt í keppni með öðrum Norðurlandaþjóðum.

Skráning hófst þriðjudaginn 9. júní 2015 og fer fram á rafrænu skráningarformi hér. Skráningarfrestur rennur út 20. ágúst nk. Síðast gátu færri tekið þátt en vildu og við minnum á að fyrstur kemur, fyrstur fær.

Út á hvað gengur keppnin?
Keppendur eru á aldrinum 10-16 ára. Í hverju liði eru hámark 10 börn og a.m.k. einn fullorðinn liðsstjóri. Athugið að liðsstjórar geta verið foreldrar og/eða starfsfólk skólans. Öll lið fá senda þrautabraut í upphafi skólaárs til að undirbúa sig þar sem unnið er með nýtt viðfangsefni á hverju ári.

Laugardaginn 14. nóvember 2015 hittast keppnisliðin í Háskólabíói og keppa sín á milli í þraut ársins.

Í undirbúningi keppninnar læra nemendur  að beita stærðfræði og vísindum til að leysa raunveruleg verkefni og temja sér öguð vinnubrögð við öflun heimilda, úrvinnslu gagna og skýrslugerð. Einnig læra nemendur að vinna sem liðsheild og að kynna verkefni fyrir áhorfendum. Ekki má gleyma því að félagsskapurinn og skemmtunin sem felst í því að leysa verkefni í hóp er veganesti fyrir lífið. Að þessu leyti eru allir þátttakendur keppninnar sigurvegarar.

Nauðsynlegur útbúnaður vegna keppninnar er Mindstorms Educations sett og tilheyrandi hugbúnaður (fæst hjá Krumma, www.krumma.is).

Þátttökugjald
Þátttökugjald er 40.000 kr. á lið. Innifalið í gjaldinu er þrautin ásamt dagskrá á keppnisdag. Skólar sem taka þátt í fyrsta skipti geta fengið senda eldri útgáfu af þrautabrautinni til æfingar að kostnaðarlausu – hér gildir einnig reglan fyrstur kemur, fyrstur fær.

Nánari upplýsingar gefur Birgir U. Ásgeirsson: birgira@hi.is

Categories: Fréttir