Filippo Berio sigraði í LEGO-hönnunarkeppni FLL

Published by Ragna Skinner on

Liðið Filippo Berio úr Garðaskóla sigraði í hinni árlegu tækni- og hönnunarkeppni FIRST LEGO League sem fram fór í Háskólabíói í dag. Liðið vann sér um leið þátttökurétt í norrænni keppni FIRST LEGO League sem fram fer í Osló í byrjun desember.

Markmiðið með keppninni er að efla færni og vekja áhuga ungs fólks á tækni og vísindum með því að leggja fyrir þau spennandi verkefni sem örva nýsköpun, byggja upp sjálfstraust og efla samskipta- og skipulagshæfni. Háskóli Íslands hefur staðið fyrir keppninni í rúman áratug.

Að þessu sinni voru 21 lið frá 18 grunnskólum skráð til þátttöku en alls voru þátttakendur um 200 talsins. Liðin höfðu unnið ötullega að undirbúningi í allt haust og mættu þrautþjálfuð til leiks. 

Keppninni er skipt í fjóra meginhluta: Forritun, rannsóknarverkefni, liðsheild og vélmennakappleik. Þátttakendur áttu að forrita vélmenni úr tölvustýrðu Legói sem ætlað var að leysa tiltekna þraut sem tengdist þema ársins sem að þessu sinni var vatn. Þá áttu keppendur að vinna sjálfstætt rannsóknarverkefni sem einnig tengdist vatni. Enn fremur þurftu keppnisliðin að gera grein fyrir því hvernig þau forrituðu vélmennin og síðast en ekki síst var tekið tillit til liðsheildar. Keppnin reyndi því á margs konar hæfni og þekkingu grunnskólanemendanna.

Þegar dómnefnd hafði metið alla þessa þætti hjá liðunum stóð Filippo Berio, lið Garðaskóla í Garðabæ, uppi sem sigurvegari en það er skipað fimm drengjum úr skólanum. Liðið fékk einnig viðurkenningu fyrir besta hönnun og forritun vélmennis. Filippo Berio tryggði sér með sigrinum þátttökurétt í FIRST LEGO League Scandinavia sem haldin verður í Osló í Noregi í byrjun desember.

Til þes að styðja liðið til þátttöku í norrænu keppninni veittu fyrirtækið Krumma og Háskóli Íslands hvort um sig liðinu 150 þúsund krónur í verðlaunafé en þessir tveir aðilar eru ásamt Nýherja helstu bakhjarlar keppninnar. Sigurliðið hlaut einnig verðlaunabikar úr LEGOi.

Verðlaun voru einnig veitt einstökum flokkum keppninnar og skiptust sem hér segir:
Sigurvegarar í vélmennakapphlaupi: Myllarnir frá Myllubakkaskóla í Reykjanesbæ
Besta liðsheildin: Legoboys frá Lágafellsskóla í Mosfellsbæ
Besta rannsóknaverkefnið: El Grilló frá Seyðisfjarðarskóla
Besta hönnun og forritun vélmennis: Filippo Berio úr Garðaskóla í Garðabæ

Allir þátttakendur í keppninni fengu enn fremur FLL-medalíu í viðurkenningarskyni.

 

Categories: Fréttir