FIRST LEGO League 2014 – Náttúruöfl

Published by hline on

FIRST LEGO League keppnin árið 2014 verður haldin 1.febrúar 2014.

Þemað í ár er Náttúruöfl (Nature’s Fury).

Markmið keppninnar er að vekja áhuga ungs fólks á vísindum og tækni, sem og að efla sjálfstraust, leiðtogahæfni og lífsleikni.

Keppendur eru á aldrinu 9-16 ára. Í hverju liði eru 6-10 börn og a.m.k. einn fullorðinn liðsstjóri. Öll lið fá senda þrautabraut átta vikum fyrir keppni til að undirbúa sig, en unnið er með nýtt viðfangsefni á hverju ári. Athugið að leiðbeinendur
geta verið foreldrar og/eða starfsfólk skólans. Allir leiðbeinendur fá afhenta handbók ásamt því að boðið verður upp á sérstakt leiðbeinendanámskeið.

Keppnin felst í eftirfarandi þáttum:

Hönnun og forritun á vélmenni úr tölvustýrðu LEGO til að leysa þrautir í þrautabraut, vísindalegri rannsókn, dagbók og skemmtiatriði.
Nemendur læra að beita stærðfræði og vísindum til að leysa raunveruleg verkefni og temja sér öguð vinnubrögð við öflun heimilda, úrvinnslu ganga og skýrslugerð.
Einnig læranemendur að vinna sem liðsheild og að kynna verkefni frammi fyrir áheyrendum.
Ekki má gleyma því að félagsskapurinn og skemmtunin sem felst í því að leysa verkefni í hóp, er veganesti fyrir lífið.

Að þessu leyti eru allir þátttakendur sigurvegarar keppninnar.

Nauðsynlegur útbúnaður vegna keppninnar er Mindstorms Educations sett og tilheyrandi hugbúnaður (fæst hjá Krumma). Eins þarf að greiða þátttökugjald. Kostnaði við keppnina er haldið í lágmarki og er nær öll vinna unnin í sjálfboðavinnu. Verið er að afla upplýsinga um verð og munu nánari upplýsingar berast til þeirra sem hafa áhuga á að taka þátt í keppninni.

Ef þið hafið áhuga á að taka þátt, vinsamlegast sendið okkur tölvupóst á firstlego@hi.is. Skráningarfrestur er 1.nóvember.

Að lokum viljum við benda á nokkur fræðandi og skemmtileg myndbönd og heimasíður tengdar keppninni

 

Categories: Fréttir