Skráning er hafin

Published by Ragna Skinner on

Skráning er hafin í FIRST LEGO League (FLL) keppnina sem haldin verður laugardag 31. janúar 2015.

Nú geta einungis 20 lið skráð sig til keppni  – best að tryggja sér pláss strax.

Til þess að skrá ykkar lið til keppni, vinsamlegast sendið tölvupóst á firstlego@firstlego.isSkráningarfrestur rennur út 1. nóvember nk.

Út á hvað gengur keppnin?
Keppendur eru á aldrinum 9-16 ára. Í hverju liði eru 6-10 börn og a.m.k. einn fullorðinn liðsstjóri. Öll lið fá senda þrautabraut í október til að undirbúa sig þar sem unnið er með nýtt viðfangsefni á hverju ári.

Þann 31. janúar 2015 hittast keppnisliðin í Háskólabíói og keppa sín á milli í þessari sömu þraut. Keppnin felst í eftirfarandi þáttum: Hönnun og forritun á vélmenni úr tölvustýrðu LEGO til að leysa þrautir í þrautabraut, vísindalegri rannsókn, dagbók og skemmtiatriði.

Nemendur læra að beita stærðfræði og vísindum til að leysa raunveruleg verkefni og temja sér öguð vinnubrögð við öflun heimilda, úrvinnslu gagna og skýrslugerð. Einnig læra nemendur að vinna sem liðsheild og að kynna verkefni fyrir áhorfendum. Ekki má gleyma því að félagsskapurinn og skemmtunin sem felst í því að leysa verkefni í hóp er veganesti fyrir lífið. Að þessu leyti eru allir þátttakendur keppninnar sigurvegarar.

Nauðsynlegur útbúnaður vegna keppninnar er Mindstorms Educations sett og tilheyrandi hugbúnaður (fæst hjá Krumma, www.krumma.is).

NÝTT – Námskeið fyrir liðstjóra
Boðið verður upp á liðstjóranámskeið í október í samstarfi við fræðslusetrið Klifið. Námskeiðið er tilvalið fyrir nýja og gamla liðstjóra, skóla sem vilja kynna sér keppnina betur og sjá hvernig unnt er að flétta undirbúninginn í skólastarfið sem og foreldra/félagsmiðstöðvar sem vilja þjálfa lið upp á eigin spýtur. Liðstjórar geta einnig sótt námskeiðið sem fjarnámskeið. Skráning og nánari upplýsingar hér.

Þátttökugjald
Þátttökugjald er 40.000 kr. á lið. Kostnaði er haldið í lágmarki og er nær öll vinna unnin í sjálfboðavinnu. Innifalið í gjaldinu er þrautin, morgunhressing, hádegisverður og síðdegishressing á keppnisdag, bolir fyrir keppendur og liðsstjóra, ásamt glaðningi fyrir keppendur. Skólar sem taka þátt í fyrsta skipti geta fengið senda eldri útgáfu af þrautabrautinni til æfingar að kostnaðarlausu – en hér gildir reglan fyrstur kemur fyrstur fær.

Categories: Fréttir